Markmið okkar er…

…að auka skilning og þekkingu stjórnvalda, heilbrigðisstétta og almennings á átröskun og tengdum röskunum.

…stuðla að auknum forvörnum og fræðslu meðal almennings.

…að einstaklingar með átröskun fái þá heilbrigðisþjónustu, meðferð og félagslegu þjónustu sem nauðsynleg er.

 

Vegna þess að...

…snemmtæk íhlutun og rétt meðferð geta dregið úr hættu á dauða og langvarandi afleiðingum af sjúkdómnum. 

…skömmin sem fylgir sjúkdómnum og vanþekking meðal almennings hafa slæm áhrif á sjúklinga, aðstandendur og samfélagið í heild.

 

Um átröskun

Átröskun er alvarlegur geðsjúkdómur og einkennist af miklum truflunum á matarvenjum sem hafa alvarlegar líkamlegar og andlegar afleiðingar fyrir sjúklinga og skerða lífsgæði þeirra verulega. Í verstu tilfellum getur átröskun leitt til dauða.

Það er mikill misskilningur að átröskun snúist einungis um mat og útlit og að einungis ungar konur veikist. Fólk á öllum aldri, af öllum kynjum og uppruna getur glímt við átröskun og þurft á aðstoð að halda.

Tíðni átraskana virðist vera að aukast í hinum vestræna heimi og engin ástæða er til að ætla að því sé öðruvísi farið á Íslandi þó ítarlegar rannsóknir skorti.

Viðburðir

Fyrsti opni fundur samtakanna – Átröskun: Staða meðferðarúrræða á Íslandi og erlendar fyrirmyndir – var haldinn á rafrænu formi þann 28. maí 2021, milli 9:00 og 12:00. Á fundinum var fjallað um stöðu átröskunarmeðferða sem í boði eru hér á landi, stöðu aðstandenda, tillögur að úrbótum og fyrirmyndir erlendis frá. Á fundinum var rætt um stöðu aðstandenda og það sem getur gagnast þeim. Þá voru öflugar konur sem sögðu sínar reynslusögur. Við hvetjum alla til að horfa á. Upptaka af fundinum er aðgengileg: https://vimeo.com/555161146?fbclid=IwAR3m7do-vAxIReR5oE3kjfeXsA-9FRevmcsgwNb6ZaNUyVLnFIsLXQ5aDOc.

Dansfjáröflun með Margréti Maack var haldin 15. júlí 2021 í Styttugarði Einars Jónssonar. Þrátt fyrir veður og vinda var góð mæting og eru samtökin þakklát fyrir framlag Margrétar og öllum sem mættu.

Fjaröflun í fyrsta Reykjavíkurmaraþoni sem samtökin tóku þátt í árið 2020 okkur kleift að halda málþing með pompi og prakt í maí 2021. Við munum hlaupa aftur og erum þakklát fyrir alla þá sem hlaupa fyrir samtökin og alla sem styðja við samtökin, svo við getum haldið áfram að vera með viðburði og þá starfsemi sem við stöndum fyrir. https://www.rmi.is/hlaupastyrkur/godgerdamal/405-satt-(samtok-um-atraskanir-og-tengdar-raskanir.

Einnig munum við halda áfram að setja inn meira fræðsluefni á vefsíðu samtakanna og facebook- síðu SÁTTar. Efnið verður aðgengilegt hér á vefsíðunni og á samfélagsmiðlum.

 
 
 

Styrkja SÁTT

Samtökin fjármagna starfsemi sína með viðburðum, styrkjum og frjálsum framlögum. Viljir þú styrkja samtökin er kennitala samtakanna 530720-0120 og reikningsnúmer: 0515-14-055050.